eXTReMe Tracker
Birna Picciridda: október 2006

þriðjudagur, október 31, 2006

La Camorra


En það er nafnið á Mafíunni í Napoli. Ein sú skæðasta á Ítalíu ásamt la Ndrangheta sem er sú Calabríska og svo náttúrlega Cosa Nostra sem er í Sikiley. Það eru miklar hreyfingar og illindi núna í La Camorra mafíunni. Í dag voru 3 morð framin sem gera 12 morð seinustu 10 daga eða 75 morð á árinu... bara í Napoli. Í gær var einn dritaður niður rétt hjá Piazza Plebiscito sem er í miðbæ Napolí og ég hef nokkrum sinnum þrammað um. Hann reyndi að forða sér inn á einn af mörgum kaffibörum sem þar eru staðsettir með þeim árangri að einhver Rúmeni sem var að drekka kaffið sitt í rólegheitum fékk eina kúluna í fótinn. Ítalska ríkisstjórnin er að ákveða hvort að senda eigi 1300 hermenn til borgarinnar til að reyna að róa ástandið. Þess má þó geta fyrir þá sem eru dauðskelkaðir að lesa bloggið núna og á leiðinni suður eftir að átökin eiga sér eingöngu stað innan mafíunnar en öll eiga fórnarlömbin það sameiginlegt að vera nýsloppnir úr fangelsi, á skilorði eða bara hreinlega eru mafíósar sem verið er að hefna fyrir ( nema Rúmeninn náttúrlega, hann var bara að flækjast fyrir ).
Annars er það helst að frétta úr Ekstra Blaðinu í dag að þeir gera grín af Jóni Ásgeir og segja að hann hafi verið í mörg ár að byggja upp ímynd sína sem síðhærður playboy en núna eigi hann yfir höfði sér fangelsisvist. Svo er talað um Björgúlf og hann þarna Pálma í Hagkaupum sem á að hafa svarað þeim fréttamönnum Ekstra Blaðsins eitthvað illa og sagt að Danskir blaðamenn sé óréttlátir og illa upplýstir, auk þess sem að hann á að hafa sagt að á Íslandi þyrfti ekki að gera upp tekjur eða annað tengt sköttum nema menn vildu það sjálfir.

Jáhá... þið segið það allt saman

sunnudagur, október 29, 2006

Ekstra Bladet i dag

Jæja þá er sakamálasagan byrjuð í Ekstra Blaðinu. Ég rölti út í morgun og keypti þetta forláta blað. Maður verður nú að fylgjast með frá byrjun. Þar sem að hvorki mbl né dv eru komnir með fréttina á netið þá ætla ég að vera fyrri til og segja ykkur hvað stendur í stórum dráttum í blaðinu
Fyrirsögnin er Milljarðaspilið og lofar góðu. Heilar 5 síður eru teknar undir hasarinn. Greinin byrjar svona: Frá lítilli rok og klettaeyju langt norður í Atlantshafi búa 300 þúsund íslendingar sem hafa fengið þá flugu í höfuðið að þeir geti ferðast um og keypt upp allan heiminn. Þeir dreifa um sig peningum eins og venjulegt fólk kastar hrísgrjónum í brúðkaupum. Einn góðan veðurdag birtust þeir í Kaupmannahöfn og keyptu upp öll okkar stærstu fyrirtæki. Við sáum m.a á eftir Magasin ( hér um bil með feitletruðu og upphrópunarmerkjum ), Sterling, Illum til umatalaðra eyjabúanna. Hvaðan koma svona miklir peningar á eyju þar sem ekkert er nema heitir hverir?
Jú Íslendingar hafa heitt vatn sem streymir upp úr jörðinni , en þeir hafa líka fundið óstöðvandi lind af heitum peningum.
Svo er ýjað að því að á komandi vikum þá verði hulunni flett af stærstu og ríkustu fjölskyldum íslands, ríkustu mönnum rússlands og dönskum spilltum lögfræðingum sem hafi hjálpað íslensku hvítþegnu milljörðunum að komast inn í landið. Farið er yfir kaup Baugs og Gaums seinustu árin og Kbbanki Kaupþing nefndur mjög oft á nafn og á neikvæðu nótunum ásamt Exista, Fengs, Fons og Fl Group sem eru greinilega ekki "in" hjá fréttamanninum. Hann rekur peningaviðskipti allra þessara fyrirtækja í gegnum Kbbanka útibúið í Lúxemborg sem svo er með sambönd á Jómfrúareyjum. Þannig komist þeir upp með að borga ekki skatta í löndum þar sem að viðskiptin fara fram. Mikið er talað um Jeff sem er lögfræðingur Baugs manna hér í DK og fyrirsögnin á myndinni af honum er, steinríkur danskur lögfræðingur hjálpar íslensku milljörðunum til Dk og er sjálfur orðinn margmilljóner.
Hann svarar fyrir sig og eyjabúana svokölluðu, bíddu afhverju eiga þeir að borga skatt ef þeir komast upp með það? Þið ættuð frekar að benda fingri á þá sem að búa til lögin.
Sagan heldur svo áfram til Rússlands þar sem að Mikhail Fridman er tekinn fyrir en við þurfum að bíða þar til í næstu viku með að fá að vita tengslin á milli hans og rússnesku mafíunnar og íslendinganna sem greinilegt er að eru mjög náin, samkvæmt fréttamanni ekstrablaðsins.

föstudagur, október 27, 2006

Af roki og öðru áhugaverðu

Jebb, það er bara hér um bil óveður í Danaveldi í dag. Örugglega alveg 20 metrar á sekúndu þó að enginn viti hvað það er mikið og bara frekar hryssingslegt veður skal ég segja ykkur. Það er þó ekki kalt. Alveg ennþá pils og kragabolur. Ekkert jakkaveður enda alveg um og yfir 15 stiga hiti. En það er rok og allt lauslegt á Öresundskolleginu löngu fokið út í rassgat eða til Svíþjóðar. Ég er bara á fullu í skýrslu og ritgerðavinnu. Nú fer lítið að verða eftir af árinu. Ég er búin með eina skýrsluna. Það er umhverfislegt mat á aðstæðunum í Ikamut þorpinu á Grænlandi. Skila henni núna á mánudaginn. Svo er flugösku skýrslan að klárast, ætla helst að vera búin með hana núna um helgina. Eftir það get ég þá tileinkað stærðfræðinni og lokaverkefninu tíma mínum. Ég setti mér það að markmiði að klára lokaverkefnið þann 10 des. Veit samt ekki hvort að það náist hjá mér. Var búin að hugsa mér að verja ritgerðina fyrir jól. Það kannski hefst ekki stærðfræðarinnar vegna þannig að kannski er bara best að gera þetta í janúar. Sjáum til.

Pillan ( Pernille ) bað mig í dag um að taka þátt í kynningu á Artek deildinni ( heimskautadeildin þar sem ég er að vinna verkefnin mín í ). Henni finnst ég greinilega vera svona gott heimskautaandlit. Eflaust mun ég draga að mér marga nýja nördalega stúdenta í deildina. Hef enga trú á öðru með minni óaðfinnanlegu dönsku og persónutöfrunum þá verður deildin mjög sennilega að vísa æstum múgnum frá á komandi árum! Ég á að standa í einhverjum svona bás frá klukkan 13 til 18 á fimmtudaginn þannig að ef þið hafið áhuga á að koma og heimsækja mig þá er þetta í deild 204! Ég fæ svo 400 króna inneign í bókabúðinni fyrir greiðann! Eg get þá farið og keypt mér einhverja skemmtilega stærðfræðibók fyrir allt erfiðið. Get ekki beðið. Þetta verður frábært!

Best að halda áfram í skriftunum. Þetta gerist víst ekki að sjálfu sér eins og maðurinn sagði.

fimmtudagur, október 26, 2006

Tékkið á þessu!


http://www.thepetitionsite.com/takeaction/543750198?ltl=1161896629

föstudagur, október 20, 2006

I created a Slide Show! Check it out!

Get Your Own! | View Slideshow

fimmtudagur, október 19, 2006

Why?

Hvað er málið með að að íslendingar séu að fara að veiða hvali í atvinnuskyni.? Hver ætlar að éta hval á Íslandi í dag? Ég sé fyrir mér að Dominos þurfi hreinlega að fara að hugsa upp sérstaka hvalspikspizzu ef þetta á að standa undir sér! Kommon hvalkjöt er náttúrlega bara hreinlega vont á bragðið, fyrir utan það að hvalir nú í dag eru syndandi kvikasilfursgeymslur. Ojjj ekki íslenskt hvalkjöt á diskinn minn...

miðvikudagur, október 18, 2006

Yfirvinna

Þetta er það sem gerist eftir 15 tíma yfir ritgerð þar sem að heimildir eru á 4 tungumálum og sýrubað annaðslagið á lab-inu þess á milli...

Ragnhildur kemur upp í deild með foreldrum sínum.

Ragnhildur: Hæ hvað segirðu
Birna: uuu Hæ allt fínt! Ert þú á túr ... ( stoppaði í miðri setningu þar sem ég mundi ekki hvað ég ætlaði að segja næst, en það ku' hafa verið ..... um svæðið )
Ragnhildur glottandi : já já á túr um svæðið...

Ég er inná lab-i aðeins seinna

Dönsk stelpa: Heyrðu veistu hvenær þrifakonan kemur?
Birna: Nei þetta er tilraun sem dregur þungmálma úr ösku
Dönsk stelpa: uuu og heldur áfram að vaska upp

Ég fattaði 5 mín seinna hvað hún sagði í rauninni

Á hjólabrautinni á Amager rétt fyrir miðnætti. Einhver strákur er alltaf að horfa aftur fyrir sig á hjólinu og mér fannst eins og hann væri að horfa til mín og ég ætti að þekkja hann. Maðurinn er með gleraugu og húfu alveg ofan í gleraugu. Allt í einu rennur upp fyrir mér að þetta sé Toke sem var með mér í nokkrum hópavinnum í fyrra.

Birna: Nei Hæ ( frekar áköf )
Ókunnugur maður: Já hæ og brosir voða mikið
Birna: Hvað segirðu nú gott
Ókunnugur maður: Ha jú bara allt fínt
Rautt ljós og við stoppum.
Ég lít betur á manninn og sé að ég þekki hann akkúrat ekki neitt
Grænt ljós
Birna: Heyrðu okei bless bless
Ókunnugur maður: Já bless og enn voða brosandi
Ég þeysist af stað á græna ljósinu og ætla aldeilis að stinga hann af
Rautt ljós
Ókunnugur maður er eitthvað að spá í hvort hann eigi að þekkja mig og er alltaf að kíkja eitthvað á mig og brosa
Loksins grænt aftur
Ég sting af og ókunnugi maðurinn veifar voðalega sáttur bara...

Díses kræst

mánudagur, október 16, 2006

I don't feel like dancing ...

Eina fólkið sem ekur um á vespum í Kaupmannahöfn eru litlir feitir arabar. Hvernig stendur á því eiginlega? Og þeir eru líka alltaf hér um bil búnir að keyra yfir mig á hjólabrautinni. Get a real bike sko bara!

miðvikudagur, október 11, 2006

WHERE IS THE PHOTO TAKEN?


Og sumir mega ekki svara! ( þessir sumir vita hverjir þeir eru )

Það er búið að springa einu sinni á nýja hjólinu. Fór með það í viðgerð og er búin að fá það aftur tilbaka. Það var íslenskur strákur sem vann á verkstæðinu þannig að ég þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir að tala dönsku. Annars er maður nú sleipur í kartöflumálinu og talar dönsku á hverjum degi við Pilluna sem er bossinn minn í lokaverkefninu.

Ég var að hugsa um það í morgun þegar ég geystist eftir götum Kaupmannahafnar hvort ég ætti ekki að mála fákinn? Nær ekki nokkurri átt að hafa hjólið svona svart. Á hvað lýst ykkur best? Rautt, bleikt eða blátt? Já eða jafnvel grænt svona í stíl við þjóðarsálina? Ha? Kannski ég brjóti upp lærdómsmunstrið með smá málningarferli um helgina. En fyrst er að ákveða litinn.

Og spurning dagsins og jafnvel vikunnar ( fer eftir hvað ég verð dugleg að blogga ) er: Hvar er þessi mynd tekin?

þriðjudagur, október 03, 2006

Gamalt og nýtt

Ég ákvað á leið minni í skólann í morgun að fara nýja leið sem ég hélt að myndi kannski stytta ferð mína til DTU. Nýja leiðin leit mjög vel út til að byrja með en eftir smá stund áttaði ég mig á því að ég vissi ekkert hvar ég var. Ég hélt samt áfram að hjóla bara og eftir svolítinn tíma áttaði ég mig á því hvar ég var og fann leiðina í skólann. Ég sá alveg nýja hlið á Kaupmannahöfn með því að fara nýju leiðina en var samt sem áður aðeins lengur því að ég týndist aðeins. Ég fór þá að velta fyrir mér hvort ég ætti að prófa að fara nýju leiðina aftur á morgun og athuga hvort ég finni styttri leið á henni eða fara bara gömlu leiðina sem er örugg, ég kann og veit hversu langan tíma tekur, þó ég sé búin að fá smá leið á henni.... ?

sunnudagur, október 01, 2006

Daufir dagar

Það er gjörsamlega ekkert að gerast á þessari síðu hjá mér. Ástæðan er svo sem ekki mjög flókin en dagarnir eru bara búnir að vera einstaklega einsleitir upp á síðkastið. Tilraunin hjá mér mistókst og ég þurfti að byrja á henni upp á nýtt, ástæðan er mjög sennilega tungumálaörðugleikar. Ég sit flesta daga upp í Artísku deild á skrifstofu okkar Ragnhildar, þar sem við erum hvor í sínu horninu að skrifa ritgerðirnar okkar. Ég fæ annaðslagið að skella mér í sýrubúninginn og er það hápunktur dagsins því maður fær svona kjarnorkufíling einhvern í þessari múnderingu. Mér er ógeðslega illt í tönnunum því að endajaxlarnir eru að koma niður og það er allt annað en gott. Get hvorki borðað né opnað munninn mjög mikið. Þannig að ég þegi bara og fasta. Það er svo sem allt í lagi. Er byrjuð að læra stærðfræði aftur. Í dag er stærðfræðidagur og sennilega ástæða þess að ég er að blogga um ekki neitt.

Annars er alveg rosalega mikið ekkert að frétta! Vil óska íslendingum til hamingju með að bandaríski herinn sé farinn af landinu, þó það sé nú tvískinnungsháttur því að þeir munu sjá samt sem áður um varnarmál okkar í framtíðinni. Buhuuuu
Lúlli laukur biður að heilsa í bili