eXTReMe Tracker
Birna Picciridda: Reality bites

sunnudagur, júlí 30, 2006

Reality bites


"We are not in the construction and engineering business. We are in the business of making money."

Ég er orðin leið á þessum tvískinnungi hjá fólki. Maður horfir á ástandið í Líbanon núna og hugsar, ætlar þessum hörmungum í Miðausturlöndum aldrei að linna? Það er auðvelt að sitja inn í stofu og tárast yfir myndbrotum af börnum sem hafa orðið fyrir sprengjuárásum á meðan þau voru að horfa á sjónvarpið eða að drekka mjólkurglas, dregin líflaus upp úr rústum brennandi húsa þeirra og ásaka svo ráðamenn Bandaríkjanna og Breta í huganum yfir að vera svona miklir skíthælar yfir að reyna ekki að koma á friði. Fólk hugsar með sér, ef maður bara gæti gert eitthvað til að hjálpa til. En eins dauði er annars brauð og í þessu tilfelli ætti íslendingar að horfa sér nær. Hagsmunir vestrænna fyrirtækja eru beintengdir við stríð. Lítum á hvaða fyrirtæki við höfum hérna í bakgarðinum hjá okkur. Já Íslendingar, og þá sér í lagi Austfirðingar sem eru að springa úr gleði yfir allri velgengninni og uppsveiflunni sem er víst álverum að þakka, buðu Bechtel hjartanlega velkomna til landsins. Bechtel eru æðislegir. Þeir halda margra daga öryggisnámskeið svo að allir komist óslasaðir heim til sín á kvöldin eftir að hafa komið nálægt vinnusvæðinu á Reyðarfirði. Það er frábært, þannig að ef einhver lendir í vinnuslysi þá er ekkert hægt að abbast upp á þá. Enginn svíkur peninga út úr Bechtel enda græddu þeir ekki nema nokkra milljarða á að þykjast byggja upp mannvirki í Írak sem enn þann dag í dag hafa ekki skilað sér til fólksins. Hver annar en Pentagon er helsti styrkataðili Bechtel. Þvílík tilviljun. Fæstir vita hinsvegar að Bechtel hafði hendur í þróun kjarnorkusprengjanna sem voru hannaðar til að senda á Hiroshima og Nagasaki en Bechtel menn eru mjög framarlega í þróun kjarnorkuvopna og í auðgun úrans og hafa grætt á tá og fingri að selja vopn sín, og svo "eftir striðsuppbyggingu" til stríðshrjáðra landa. Þar má nefna vopn sem voru t.d notuð af Írökum gegn Íran. Bestu vinir Bechtel eru svo náttúrlega Alcoa sem framleiðir ál á fínum prís í vopnin sem að Bechtel þróa því að Ísland borgar með orkunni sem þeir fá í hendur bara til að Íslendingar trúi því að það sé uppsveifla í landinu, þrátt fyrir að það hafi aldrei verið nein niðursveifla og haldi áfram að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn fái að halda sínum mönnum á þingi þrátt fyrir að enginn kjósi þá lengur. En það er þægilegt að benda alltaf á einhverja aðra og hugsa ekki um málin eins og þau raunverulega eru. Sannleikurinn er alltof oft óþægilegur og fólki finnst betra að hugsa ekki of mikið um afhverju hlutirnir eru eins og þeir eru. En það réttlætir ekki þetta tvöfalda siðgæði sem við lifum í dags daglega, grátur og gníst tanna yfir brenndum börnum í sjónvarpinu og blessun okkar á fyrirtækjum sem halda þessum hörmungum gangandi bara til þess að geta sýnt fram á meiri gróða í ársskýrslum sínum. Já það er gott að vinna fyrir Bechtel enda skapa þeir atvinnu og atvinna er góð sérstaklega ef við hugsum ekki lengra en nef okkar nær.

1 Comments:

At 3. ágúst 2006 kl. 22:11, Anonymous Nafnlaus said...

WORD!
Anna Sigga

 

Skrifa ummæli

<< Home