eXTReMe Tracker
Birna Picciridda

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

Já, ætli maður haldi ekki áfram að læra bara og reyni að útskrifast sem umhverfistæknifræðingur. Ætli það þýði nokkuð annað? Mér sýnist ekki. Mér virðist sem það veiti ekki af einhverjum þarna heima sem kann eitthvað í umhverfislögum og rétti og getur líka talað ítölsku og ekki aðeins heldur getur einnig talað sikileysku. Jú mér liggur mjög þungt á hjarta þessi blessaða Kárahnjúkavirkjun. Ekki aðeins það að Impregilo eru hinir mestu umhverfisvargar og hafa margsinnis verið kærðir og dregnir fyrir rétt fyrir umhverfisspjöll, léleg vinnubrögð, vanvirðingu á vinnusamningum, mútur á pólitíkusum og seinast en ekki síst samsæri við þekktustu og hættulegustu bossa í sikileysku mafíunni “ Cosa nostra” . Þegar hafa nokkrir af yfirmönnum fyrrnefnds fyrirtækis verið dregnir í fangelsi fyrir tengl þeirra við Mafíuna. Nú er mikið talað um hina frægu brú sem á að tengja Sikiley við Ítalíu, og hafa Impregilo menn ekki falið áhuga sinn á að taka þátt í þeirri framkvæmd sem mun skila þeim fjárfestingum upp á umog yfir 8 billionir Evra. Það er alvitað hér um slóðir að ef brúin yfir til Ítaliu verður byggð þá muni hún verða kölluð Mafíubrúin eftir þeim sem hana munu byggja og get ég sagt fyrir víst að hræðsla fólks hér á Sikiley er mun meiri við þann mikla skugga mafíunnar sem er bakvið framkvæmdina en umhverfisáhrifin sem hún mun hafa í för með sér.

Impregilo bauð 40 – 70 prósent lægra verð í Kárahnjúkaframkvæmdina en önnur fyrirtæki. Datt stjórnmálamönnum landsins ekki til hugar að spurja sig hvernig Impregilomenn höfðu hugsað sér að byggja virkjunina? Yfirleitt er það nú þannig að þegar maður kaupir ódýra hluti eins og t.d á markaði þá gerir maður sér grein fyrir því að hluturinn er annaðhvort gerður af fátækum börnum í þriðja heiminum sem fá 1 krónu í kaup á mánuði, eða þá að sami hlutur sé gerður úr gerviefnum sem mjög fljótlega muni láta á sjá og eyðileggjast. Mér þætti verra ef svo væri einnig með Kárahnjúkastífluna. Því verr og miður sýnist mér hinsvegar að þannig liggi einmitt hnífurinn í kúnni eins og einhver sagði. Öll höfum við heyrt um launasamninga sem ekki hefur verið fylgt eftir, við höfum heyrt um lélegar vinnuaðstæður fólks, við höfum heyrt um yfirmenn sem þykjast ekki bera ábyrgð á því sem er að gerast þarna uppfrá, við höfum heyrt um og séð fólk af hinum ýmsu kynþáttum sem hírast þarna uppi á öræfum, suðurevrópubúar, asíubúar, afríkubúar, suður ameríkanar í kulda og frosti og enginn skilur neitt í neinu.

Þá er bara að bíða og sjá úr hverju stíflan verður byggð og hvort hún haldi, vonandi verður það ekki eins og með Impregilostífluna í Nigeríu sem brást 1998 og sökkti 15 þorpum, eða eins og með fínu stífluna sem þeir byggðu í Guatemala og komst aldrei almennilega í notkun þar sem að útreikningar Impregilomanna voru rangir í sambandi við leirframburð og stíflan þar með fylltist af leir og sandi. Já við skulum vona að þeir séu búnir að átta sig á því hversu mikinn framburð Jökla ber með sér, því ekki litist mér á allt það vatnsmagn sem á eftir að flæða yfir okkur á Héraði ef stíflan er ekki nógu vel útreiknuð.

Já, hver veit nema sikleysa mafían sé komin til Íslands. Þess vegna held ég áfram að læra í Sikiley. Aldrei að vita nema það eigi eftir að hjálpa mér í framtíðinni. Eins og hann Davíð kallinn. Veit samt ekki til að hann tali ítölsku en gæti nú verið að hann hafi tekið hraðnámskeið áður en hann fór að heimsækja Berlusconi á heimili hans, stuttu áður en hið sprenghlægilega tilboð Impregilo var samþykkt af Landsvirkjun Íslands og Alþingi Íslands án þess að kanna það neitt frekar ofan í kjölinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home